Maður að nafni Julien Maggiotti lenti í virkilega óheppilegu og óþarfa vandræðum áður en janúarglugganum fræga var lokað á dögunum.
Maggiotti er leikmaður Bastia í næst efstu deild Frakklands en hann taldi sig vera á leið til liðs sem heitir Eintracht Brunswick í næst efstu deild Þýskalands.
Það var ‘maður á vegum’ Brunswick sem hafði samband við Maggiotti á lokastundu gluggans og bauð honum að koma á lánssamningi til félagsins.
Þessi maður sagðist vera yfirmaður knattspyrnumála Brunswick sem reyndist ekki rétt en hann vildi aðeins peninga frá leikmanninum.
Maggiotti taldi sig vera á leið til Þýskalands í marga klukkutíma áður en umboðsmaður hans komst að því að um lygi væri að ræða.
Ónefndi maðurinn bað Maggiotti um 12 þúsund evrur svo hann gæti bókað læknisskoðun fyrir leikmanninn og þá byrjuðu ákveðnar viðvörunarbjöllur að hringja.
Brunswick hafði aldrei íhugað að fá miðjumanninn í sínar raðir en hann hefur sjálfur staðfest þær fregnir.
,,Umboðsmaðurinn minn hafði samband við einn tengilið í Þýskalandi og komst að því að Eintracht Brunswick hafði aldrei sýnt mér áhuga og þetta voru allt lygar,“ sagði Maggiotti.
,,Það var erfitt að bíða alla þessa klukkutíma, þú byrjar að spyrja sjálfan þig spurninga. Þú spyrð hvað þú hafir gert til að eiga þetta skilið?“
,,Ég er ekki að kenna neinum um en þetta gerðist bara við mig persónulega, það er allt saman.“