Graeme Souness, goðsögn Liverpool, er á því máli að Manchester United eigi ekki að nota enska landsliðsmanninn Kobbie Mainoo í varnarsinnuðu hlutverki þessa stundina.
Souness telur að Mainoo sé mun öflugri hinum megin á vellinum og að hans varnarvinna sé ekki upp á marga fiska.
Mainoo er 19 ára gamall og er gríðarlega efnilegur en hann á mögulega eftir að finna sína sterkustu stöðu á vellinum.
,,Það kom mér ekki á óvart að heyra Ruben Amorim segja að Mainoo væri ekki þægilegur í varnarsinnuðu hlutverki á miðjunni,“ sagði Souness.
,,Ég sagði það í júní að af ungum efnilegum enskum miðjumönnum þá er Adam Wharton með mun betri leikskilning varnarlega en Mainoo.“
,,Mainoo vekur athygli því hann er góður á boltanum, hann fer framhjá fólki og út um allt á vellinum. Hann er hins vegar ekki góður í að átta sig á hættustöðum ennþá, hann er að skilja miðjuna eftir of auðveldlega.“
,,Hann er ekki nógu agaður í þessu hlutverki ennþá en hann er aðeins 19 ára gamall. Hann getur þróað sinn leik í framtíðinni.“