Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, sat fyrir svörum í dag í tilefni þess að hann valdi hóp sinn fyrir komandi leiki gegn Sviss og Frakklandi í Þjóðadeildinni.
Ísland mætir Sviss 21. febrúar og Frökkum fjórum dögum síðar. Báðir leikir verða ytra. Ísland er einmitt líka í riðli með Sviss í riðlakeppni EM í sumar, eins og Noregi sem liðið mætir einnig í Þjóðadeildinni.
Þorsteinn var í dag spurður út í hvort það væri óheppilegt að mæta þessum liðum nú á vormánuðunum og aftur í sumar.
„Við förum bara í þessa leiki til að vinna þá, förum ekki í neinn feluleik því við erum að spila við þær á EM,“ sagði Þorsteinn þá og benti á mikilvægi Þjóðadeildarinnar.
„Þessir leikir skipta gríðarlega miklu máli því við viljum vera í efstu tveimur sætunum í þessum riðli upp á undankeppni HM í haust.
Það er langt í EM. Nýir leikmenn geta komið inn, leikmenn meiðst og þess háttar. Það fara allir í þessa leiki og gefa allt í það, leggja öll spil á borðið,“ sagði Þorsteinn.