William Saliba, leikmaður Arsenal, er áfram orðaður við Real Madrid í frönskum miðlum í dag.
Saliba er einn fremsti miðvörður heims og hefur verið orðaður við spænska stórveldið lengi. Franski miðillinn RCM Sport heldur því fram að Real Madrid vilji fá þennan 23 ára gamla leikmann til að leiða varnarlínu sína næstu árin.
Arsenal hefur þó lítinn áhuga á að selja hann og er sagt að félagið vilji upphæð sem myndi gera Saliba að dýrasta varnarmanni sögunnar eigi það að selja. Harry Maguire er sem stendur dýrastur en hann var keyptur til Manchester United frá Leicester á 80 milljónir punda 2019.
Saliba gekk í raðir Arsenal 2019 en var á láni fyrstu tímabilin í London. Hann kom svo inn í liðið 2022 og hefur verið lykilmaður síðan.