Höttur og KA hafa náð samkomulagi um að Bjarki Fannar Helgason muni verða framtíðar leikmaður KA en Bjarki skrifaði í vikunni undir þriggja ára samning við KA.
Bjarki sem kemur upp í gegnum yngri flokka starfið fékk eldskírn í meistaraflokki með Spyrni en hefur svo tvö síðustu sumur leikið með Hetti/Huginn.
„Það er fagnaðarefni að félagið sé að selja leikmann til félags í efstu deild og sömuleiðis að sjá leikmann taka skrefið úr Spyrni í HH og svo enn lengra. Bjarki hefur lagt mikið á sig innan og utan vallar, æft vel og er alltaf jákvæður og uppsker nú eins og hann hefur sáð,“ segir á vef félagsins.
Bjarki mun þó spila með Hetti/Huginn í 2. deildinni í sumar áður en hann gengur formlega í raðir KA: „KA og HH hafa átt í góðu samstarfi og sér ekki fyrir endann á því,“ segir á vef félagsins.