Víkingur mun í næstu viku mæta Panathinaikos í Sambandsdeildinni en um er að ræða umspilið um að komast inn í 16 liða úrslitin. Víkingur þarf að leika heimaleik sinn í Helsinki í Finnlandi.
Enginn völlur hjá félagsliði kemst í gegnum regluverk UEFA um völl á þessu stigi en Víkingur lék á Kópavogsvelli í riðlakeppninni og fékk fyrir því undanþágu. Endurbætur á Laugardalsvelli koma svo í veg fyrir að Víkingur geti spilað þar.
Samkvæmt heimildum 433.is mun Víkingur fara fram á það við KSÍ að sambandið taki þátt í þeim kostnaði sem er við það að vera með heimaleik sinn erlendis.
Í leyfisreglugerð KSÍ segir. „KSÍ mun tryggja að Laugardalsvöllur uppfylli öll sett skilyrði fyrir KSÍ flokk A (UEFA flokk 3). KSÍ býður hann til notkunar fyrir öll félög sem eru í þeirri stöðu að þurfa annan völl fyrir leiki í Evrópukeppnum félagsliða, þannig að hann geti þjónað sem fastur varavöllur í Evrópukeppnum félagsliða,“ segir í reglugerð KSÍ og telja Víkingar að þetta ákvæði geti KSÍ ekki staðið við.
Ljóst er að sambandið gat ekki uppfyllt það að Laugardalsvöllur gæti þjónað sem varavöllur fyrir Víking. Í Laugardalnum telja aðilar þó að ákvæðið ekki þannig að sambandið eigi að taka þátt í kostnaði Víkings. Fékk 433.is þær upplýsingar frá starfsmanni KSÍ að til skoðunar væri að breyta orðalagi í þessi reglugerð til að taka af allan vafa um að KSÍ ætti að borga svona reikning.
Fari svo að Víkingur fari ekki áfram gegn gríska stórliðinu er ljóst að félagið mun tapa háum upphæðum á þessu verkefni. Kostnaður Víkings við það að fara með leikinn úr landi er verulegur, leiga á velli, gisting á hóteli og þar fram eftir götunum. Lið Víkings mun dvelja erlendis í tíu daga vegna leikjanna, fyrri leikurinn er í Finnlandi í næstu viku og í Grikklandi er spilað viku síðar.
Tugmilljóna reikningur sem Víkingur situr uppi með af því að enginn völlur á Íslandi uppfyllir þær kröfur sem eru settar. Líklega væri hægt að spila þennan leik á Íslandi á næsta ári þegar hybrid-gras verður komið á Laugardalsvölli.