Memphis Depay fyrrum leikmaður Barcelona, Manchester United og fleiri liða hefur beðist afsökunar á því að hafa keyrt fullur í Mónakó á síðasta ári.
Depay var stoppaður á Rolls Royce bifreið sinni síðasta sumar, hafði hann setið á veitingastað og fengið sér í glas.
Hann ákvað að keyra heim en var gómaður, hann var dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi og þarf að greiða rúma milljón í sekt.
„Ég vil biðjast afsökunar á hegðun minni,“ segir Depay eftir að dómur í máli hans féll.
„Ég gerði mistök, ég keyrði heim eftir að hafa fengið mér í glas á veitingastað. Ég hefði átt að taka leigubíl en gerði það ekki.“
„Ég vil því biðjast afsökunar, ég tek fulla ábyrgð á þessu. 2024 var árið til að læra af mistökum, ég geri það. Ég geri betur árið 2025.“
Depay er frá Hollandi og hefur átt farsælan feril en hann þénar um 30 milljónir á viku hjá Corinthians í Brasilíu í dag en hann samdi við félagið síðasta sumar.