Stan Collymore, fyrrum leikmaður Liverpool og sparkspekingur, segir að það yrði galið að leyfa Mohamed Salah að fara frá félaginu í sumar.
Samningur hins 32 ára gamla Salah er að renna út í sumar en hann er að eiga eitt sitt besta tímabil á Anfield til þessa. Ekki hefur tekist að semja og að óbreyttu má Egyptinn fara frítt frá Liverpool í sumar.
„Það væri galið af Liverpool að leyfa honum að fara. Þú færð ekki leikmenn eins og hann á 50-60 milljónir til að fylla skarðið. Það mun kosta miklu meira,“ segir Collymore.
„Hann er þegar þarna svo það þarf ekki að borga fyrir hann. Hann þekkir Liverpool og félagið þekkir hann. Það þarf bara að semja um laun til þriggja ára.“