Steven Gerrard og sádiarabíska félagið Al-Ettifaq ákváðu í síðustu viku að slíta samstarfi sínu. Tilfinningin hjá félaginu var sú að Liverpool goðsögnin hafi lengi haft hug á því að fara.
Gerrard tók við Al-Ettifaq sumarið 2023 og fékk til að mynda til sín Jordan Henderson og Gini Wijnaldum. Árangur var þó ekki eftir væntingum í tíð Gerrard í Sádí.
The Athletic fjallar nú um brotthvarf Gerrard og þar segir að forráðamenn Al-Ettifaq hafi fundið það í nokkurn tíma að verkefnið þar ætti ekki lengur hug hans allan. Hann hafi verið á útleið í töluverðan tíma.
Þá segir einnig að Gerrard hafi verið orðinn pirraður á breytingum í starfsliðinu, meiðslum og slöku gengi liðsins, meðal annars.
Gerrard hefur einnig stýrt Rangers og Aston Villa á stjóraferlinum.