Lögreglumaðurinn sem um ræðir, Stephen Lovell, kom fram í réttarsal í dag og sagði frá sinni hlið á málinu. Allt hófst þetta í janúar 2023 með því að Kerr, sem er ein besta knattspyrnukona heims, og kærasta hennar Kristie Mewis, sem einnig er knattspyrnukona, lentu upp á kant við leigubílstjóra í London.
Höfðu þær verið úti að skemmta sér og ætluðu þær að taka leigubíl heim. Á leiðinni kastaði önnur þeirra hins vegar upp í bílnum og krafði leigubílstjórinn þær um sérstakt gjald vegna þess. Kerr og Mewis héldu nú ekki.
Leigubílstjórinn hringdi því á lögregluna og í stað þess að fara með þær heim fór hann beint á næstu lögreglustöð. Á leiðinni þangað braut parið rúðu og vann skemmdir á skilunum sem gjarnan eru milli bílstjóra og farþega í leigubílum.
Þegar á lögreglustöðina var komið mættu aðilarnir sem áttu í hlut lögreglumönnunum Lovell og Samuel Limb. Kerr og Mewis fóru inn á lögreglustöð en leigubílstjórinn varð eftir úti.
Á stöðinni sagði Kerr Lovell að hún og Mewis hafi talið að verið væri að ræna þeim. Í réttarsal segir Lovell að Kerr hafi stanslaust gripið frammi í fyrir honum. Hann sagði þeim að þær þyrftu að greiða fyrir skemmdirnar sem þær unnu á leigubílnum en Kerr brást við með því að sína honum bankareikning sinn.
Kerr hélt því fram að leigubílstjórinn hafi haldið henni og Mewis inni í bíl sínum gegn vilja þeirra en Lovell taldi hann ekki hafa gert neitt rangt í skilningi laganna. Þær héldu því fram að hafa hringt á lögreglu en ekki eru til nein gögn um slíkt símtal. Útskýrði Kerr að þar sem hún væri áströlsk og Mewis bandarísk hafi þær ekki þekkt númerið.
🎥 The moment Chelsea striker Sam Kerr calls Met Police officer 'stupid and white' pic.twitter.com/ufT7gjBM0U
— Mail Sport (@MailSport) February 4, 2025
Upptaka úr líkamsmyndavél Lovell hefur verið gefin út og þar má sjá Kerr hrauna yfir lögreglumennina.
„Þetta hefur með kynþátt að gera. Þú trúir þessum manni. Hlustaðu á upptökuna, hann vildi ekki sleppa okkur.“ Hún sagði enn fremur að Lovell veldi það að trúa karlmanni fremur en tveimur konum og vitnaði sífellt í mál Sarah Everard, sem var nauðgað og myrt af breskum lögreglumanni. Hún hélt áfram.
„Þið eruð fokking heimskir og hvítir. Ég skal horfa í augun á þér og segja þetta, þið eru svo fokking heimskir.“
Kerr var svo handtekinn vegna þessara ummæla sem hún er nú ákærð fyrir. Hvað varðar handtöku fyrir skemmdir á bílnum var það málið látið niður falla eftir að greitt var fyrir skemmdirnar.
Verjandi Kerr tók einnig til máls í réttarsal í dag. „Það eru allir sammála um hvað var sagt en að segja þessi orð gerir þig ekki að glæpamanni. Sam Kerr var ekki reið út í lögreglumanninn þar sem hann er hvítur.“
Réttarhöldin yfir Kerr halda áfram.