Bergsveinn opnaði sig um þetta á Instagram um helgina. Hann lagði skóna á hilluna ungur að árum fyrir tímabilið 2020. Þá var hann fyrirliði Fjölnis sem var á leið í tímabil sem nýliði í efstu deild. Neistinn og ánægjan sem hafði alltaf fylgt fótboltanum var ekki lengur til staðar hjá Bergsveini.
„Ég fór í gegnum nokkrar gamlar klippur úr fótboltanum og guð hvað ég sakna leiksins og stríðsmannsins hann kallaði fram í mér,“ skrifaði Bergsveinn á Instagram um helgina.
Bergsveinn er uppalinn hjá Fjölni en lék einnig með FH við góðan orðstír, varð til að mynda Íslandsmeistari með liðinu, áður en hann sneri svo aftur í Grafarvoginn.
„Ef ég á að vera hreinskilinn þá er ég enn að vinna í að fyrirgefa sjálfum mér að hafa hætt að spila svona ungur, 28 ára gamall,“ skrifaði Bergsveinn enn fremur.
„Þegar ég horfi nánar á þetta var það rétt ákvörðun. Líf mitt hefur breyst mikið síðan þá og þó það hafi verið sársaukafullt hefur það líka verið fallegt. Ég myndi aldrei lifa því lífi sem ég lifi í dag, gert allt það sem ég hef gert og gripið öll tækifærin sem ég hef fengið,“ skrifaði Bergsveinn, sem í dag er doktorsnemi í sálfræði í Bandaríkjunum og er að gera frábæra hluti á samfélagsmiðlum, með yfir 200 þúsund fylgjendur á Instagram.
„Ég veit ekki af hverju ég er að deila þessu með ykkur. Það er bara gott að koma þessu frá mér. Elska ykkur öll,“ sagði Bergsveinn að endingu.