Manchester City er í leit að framtíðarlausn í hægri bakvörðinn hjá sér til að fylla skarð Kyle Walker, sem fór til AC Milan á láni með kaupmöguleika.
Walker verður 35 ára gamall í vor og er farið að hægjast vel á honum. Honum var því leyft að fara í janúar.
Breska blaðið Telegraph segir ríkjandi Englandsmeistarana nú horfa til Newcastle, nánar til tekið til Tino Livramento.
Livramento er 22 ára gamall og í stóru hlutverki hjá Newcastle. Félagið hefur engan áhuga á að selja hann en gæti freistað þess að leyfa honum að fara til City fyrir góða upphæð. Þá er talið að það heilli leikmanninn að spila fyrir meistarana.