Erik ten Hag fer um víðan völl og ræðir tíma sinn hjá Manchester United í viðtali í heimalandi sínu, Hollandi. Hann gagnrýnir til að mynda nokkra leikmenn sem léku undir hans stjórn á Old Trafford.
Ten Hag var rekinn frá United í haust eftir rúm tvö ár hjá félaginu. Hann vann bikarinn og deildabikarinn með liðinu en gengið í deildinni var ekki ásættanlegt.
Ten hag lenti þá upp á kant við leikmenn eins og Cristiano Ronaldo, Jadon Sancho og Marcus Rashford á Old Trafford. Sá fyrstnefndi fór svo ófögrum orðum um Hollendinginn eftir að hann yfirgaf félagið og hélt til Sádi-Arabíu.
Þá bannaði Ten Hag Sancho að æfa með United um tíma og skellti hann Rashford í agabann fyrir að hafa skellt sér á djammið í Belfast.
„Þessi kynslóð á erfitt með að höndla gagnrýni. Hún hefur of mikil áhrif á þá. Kynslóðin sem ég er af hafði mun þykkari skráp. Það var hægt að segja hlutina beint út,“ segir Ten Hag meðal annars í viðtalinu.
„Ef ég myndi gera það sama við mína leikmenn í dag myndi það hafa neikvæð áhrif. Þessari kynslóð finnst svona lagað móðgandi.“