Skemmdarvargurinn í Mosfellsbæ hefur gefið sig fram og játað því að hafa brotið og bramlað rútu Aftureldingar. Leikmönnum og starfsliði meistaraflokks karla í fótbolta hjá Aftureldingar brá verulega í brún snemma morguns um helgina þegar liðið mætti á bílastæðið við íþróttamiðstöðina að Varmá í Mosfellsbæ.
Förinni var heitið á Keflavíkurflugvöll þaðan sem átti að fljúga til Spánar í æfingaferð. Ætlunin var að ferðast með liðsrútunni sem hefur þjónað liðinu dyggilega síðustu 15 árin. Allar rúður í henni höfðu hins vegar verið brotnar.
Hjónin Hanna Símonardóttir og Einar Magnússon hafa verið burðarásar í sjálfboðaliðastarfi Aftureldingar í fjölda ára en sonur þeirra Magnús er þjálfari meistaraflokks karla í fótbolta hjá félaginu. Einar hefur lagt mikla vinnu í að halda rútunni við auk þess að aka henni í öllum ferðum meistaraflokksins innanlands.
„Sá aðili sem hlut átti að máli hefur gefið sig fram. Hann iðrast MJÖG og hefur beðist afsökunar. Við kunnum virkilega vel að meta það og tókum afsökunarbeiðninni,“ segir í bæjarhópi Mosfellsbæjar á Facebook.
Hanna sjálfboðaliði félagsins segir að mögulega sé hægt að fá rúðu í rútuna sem ekki var talið að hægt væri að fá lengu. „Af ófáanlegu rúðunni er það að frétta að við erum virkilega vongóð um að velunnari hafi fundið eitt stykki úti í heimi og sú rúða leggi af stað til landsins seinnipartinn. Hina rúðuna verður væntanlega hægt að framleiða á Íslandi. Meira um það síðar. Takk innilega þeir sem hafa stutt við rútusjóðinn og hjálpað til með ýmsu móti.“