Allir þrír leikmenn eru að renna út á samningi á Anfield í sumar. Allir eru þeir í algjöru lykilhlutverki og Salah að eiga sitt besta tímabil til þessa. Af þessum þremur þykir líklegast að Trent fari, en hann hefur ansi sterklega verið orðaður við Real Madrid.
„Það yrði erfitt að sjá Trent fara því hann er uppalinn hérna. Ég held það sé erfitt að hafna því að vera áfram hjá Liverpool en ef hann vill nýja áskorun þá held ég að það sé aðeins auðveldara að finna annan mann í hans stöðu. Þá á ég ekki við að ég vilji losna við hann en Conor Bradley er til dæmis mjög álitlegur kostur og hefur gert vel þegar Trent meiðist og þess háttar,“ segir Zenden.
„Þegar kemur að Salah er ekki hægt að fá mann til að fylla hans skarð og ætlast til að hann geri það sama. Sem stendur getur enginn í heiminum boðið upp á svona mörg mörk og stoðsendingar. Hann er ómetanlegur og því martröð ef hann fer frítt. Félagið á að gera allt til að halda honum.“