Sir Jim Ratcliffe stjórnandi Manchester United heldur áfram að skera niður og nú fá starfsmenn félagsins á Old Trafford ekki frían hádegismat.
Í frétt Guardian segir að starfsfólki sé boðið upp á ávexti en ekki verður lengur boðið upp á frían hádegismat.
Ratcliffe er að skera niður alls staðar hjá félaginu og hefur rekið yfir 200 starfsmenn utan vallar.
Á æfingasvæðinu er sama sagan, þar fá aðeins leikmenn úr aðalliði nú hádegismat í mötuneytinu.
Aðrir starfsmenn fá súpu og brauð í hádeginu en með þessu er Ratcliffe að spara fjármuni sem hann telur að geti farið í annað.
Félagið hefur verið illa rekið síðustu ár og ljóst að breyta þarf ýmsu innan sem utan vallar svo félagið komist aftur í fremstu röð.