David Moyes, stjóri Everton, var ósáttur með dómgæsluna undir lok leiks er hans menn mættu Manchester United í hörkuleik í ensku úrvalsdeildinni.
Þessum leik lauk með 2-2 jafntefli en Everton fékk vítaspyrnu undir lok leiks sem fékk að lokum ekki að standa.
Andrew Madley dæmdi upphaflega vítaspyrnu fyrir brot á Ashley Young innan teigs en skipti um skoðun eftir að hafa skoðað atvikið í VAR.
,,Við áttum að skora meira. Þegar við vorum 2-0 yfir þá fengum við tækifærin til að skora þriðja markið. Við vorum að spila gegn góðu liði en við vitum að þeir eru ekki á góðum stað í deildinni,“ sagði Moyes.
,,Við gerðum eins vel og við gátum. Að mínu mati þá er klárlega rifið í treyju Ashley Young – dómgæslan í dag var heilt yfir rétt en ég var hissa þegar hann var sendur í skjáinn.“
,,Þessi dómur féll gegn okkur í dag en við munum ekki kvarta of mikið. Þetta féll ekki með okkur.“