Ummæli Hollywood stjörnunnar Rob McElhenney hafa svo sannarlega vakið athygli en hann er eigandi Wrexham í ensku þriðju deildinni.
Þrátt fyrir að vera eigandi liðsins ásamt Ryan Reynolds þá skilur leikarinn það vel að eigendur fái mestan hita frá stuðningsmönnum og að sá hiti eigi oftar en ekki rétt á sér.
Það er þekkt fyrirbæri í fótbolta að stuðningsmenn mótmæli eigendum síns liðs en nefna má Glazer fjölskylduna hjá Manchester United og þá Kroenke fjölskylduna hjá Arsenal.
McElhenney segist skilja pirringinn mjög vel en sem betur fer fyrir hann þá er hann ansi vinsæll hjá sínu félagi.
,,Ég mun alltaf vera í liðinu með stuðningsmönnum eða listamönnum. Það er erfitt að finna til með eigendum því, til fjandans með þá,“ sagði McElhenney.
,,Ég vorkenni stuðningsmönnunum mest af öllum og svo fer ég í lið með leikmönnum frekar en eigendum.“