Sonia Bompastor þjálfari kvennaliðs Chelsea uppljóstrar í ævisögu sinni að hún hafi í þrettán ár verið í ástarsambandi með liðsfélaga og nú aðstoðarkonu sinni.
Bompastor og Camille Abily eru par, þær léku saman hjá Lyon og síðan þjálfuðu þær liðið.
Þær ákváðu að halda sambandi sínu alveg leyndu en í bókinni uppljóstrar Bompastor um það.
„Þetta hafa verið þrettán ár af lygum, þetta er mál sem við erum í raun ekki í dag alveg tilbúnar að ræða. Við viljum bara venjulegt líf og lifa í friði,“ segir Bompastor.
„Það er erfitt að hafa svona leyndarmál í þrettán ár, núna erum við á því að við hefðum átt að segja frá þessu strax.“
Bompastor hefur ekki tapað leik með Chelsea eftir að hún tók við þjálfun liðsins síðasta sumar.