Reykjavíkurborg áformar að reisa skólaþorp á bílastæðum við þjóðarleikvang Íslands í fótbolta. Þetta kemur fram í fundargerð KSÍ.
Ekki kemur nánari fram hvernig þorpið verður en KSÍ segir að það verði áskoranir sem fylgja þessu og skert aðgengi verði að vellinum.
„Eysteinn P. Lárusson framkvæmdastjóri greindi frá áætlunum Reykjavíkurborgar um að reisa skólaþorp á bílastæði við Laugardalsvöll,“ segir í fundargerð KSÍ
„Þeirri framkvæmd, ef af verður, munu fylgja áskoranir í aðstöðu við Laugardalsvöll og verulega skertu aðgengi umferðar að leikvanginum.“
Ljóst er að KSÍ getur ekki stöðvað framkvæmd sem þessa sökum þess að borgin á landið í kringum völlinn.