Eins og flestir vita var Gylfi Þór Sigurðsson í gær keyptur til Víkings frá Val. Skiptin hafa verið á allra vörum og voru meðal annars tekin fyrir í hlaðvarpinu Þungavigtinni.
Gylfi og hans fólk létu Val í síðustu viku vita að hann vildi fara, en þessi besti landsliðsmaður Íslands frá upphafi gekk í raðir Hlíðarendafélagsins í fyrra. Sjálfur átti hann flott tímabil en hans lið langt frá titlinum, sem markmiðið var að vinna.
Breiðablik og Víkingur fengu bæði tilboð samþykkt í Gylfa, sem ákvað að endingu að ganga í raðir síðarnefnda félagsins. Kristján Óli Sigurðsson segir í Þungavigtinni að aðdragandinn að brottför Gylfa nái allt til síðasta sumars, þegar Srdjan Tufegdzic, Túfa, tók við liðinu.
„Upphafið að endinum er í fyrra þegar Arnar Grétarsson var rekinn frá Val. Nýi þjálfarinn og Gylfi eru ekki að róa í sömu átt. Sýn þeirra á fótboltann er bara allt önnur. Það er megin ástæðan,“ segir Kristján.
Bendir hann þá á að markmið Gylfa sé að landa Íslandsmeistaratitlinum. Það sé ekki raunhæft á Hlíðarenda sem stendur.
„Leikir Vals á þessu undirbúningstímabili hafa ekki gefið til kynna að þeir verði í neinni titilbáráttu. Það er ljóst að Gylfi vill vinna titilinn og ákveður að fara í Víking. Þar fær hann líka hæstu launin.“