Félagið sem ætlar sér að fá Alexander Isak frá Newcastle í sumar þarf að gera hann að næstdýrasta leikmanni sögunnar.
The Sun heldur þessu fram, en sænski framherjinn hefur einna helst verið orðaður við Arsenal. Þó einnig Barcelona og fleiri stórlið.
Arsenal er í leit að framherja og er Isak sagður á blaði þar. Talað hefur verið um verðmiða upp á um 83 milljónir punda en samkvæmt þessum nýjustu fréttum verður Isak tvöfalt dýrari en það.
Myndi Arsenal, eða annað félag, ganga að þessum 166 milljón punda verðmiða verður Isak sá næstdýrasti í sögunni á eftir Neymar. Paris Saint-Germain keypti hann frá Barcelona á 198 milljónir punda sumarið 2017.
Kylian Mbappe er sá næstdýrasti sem stendur. Hann kom til PSG sama sumar frá Monaco á 163 milljónir punda.
Isak er að eiga frábært tímabil og er kominn með 17 mörk í ensku úrvalsdeildinni.