fbpx
Föstudagur 21.febrúar 2025
433Sport

Gylfi Þór segir söguna frá sínu sjónarhorni í fyrsta sinn: Lét vita í byrjun febrúar að hann vildi fara – „Það eru ekki margir aðrir staðir í heiminum þar sem þetta kemur upp“

Hörður Snævar Jónsson
Miðvikudaginn 19. febrúar 2025 13:04

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gylfi Þór Sigurðsson, nýr leikmaður Víkings, ræðir í fyrsta sinn opinberlega um þá ákvörðun sína að knýja fram félagaskipti frá Val og ganga í raðir Víkings. Í viðtali við okkur hér á 433.is fer Gylfi yfir ferlið, svarar því sem haldið hefur verið fram og horfir til framtíðar þar sem hann undirbýr sig nú að hefja nýja vegferð á ferlinum með Víkingi.

Gylfi Þór gekk í raðir Vals fyrir tæpu ári síðan en hann valdi þá að fara í Val þrátt fyrir gríðarlegan áhuga frá Víkingi. Eftir erfitt tímabil á Hlíðarenda síðasta sumar fór eitthvað að krauma í Gylfa um að mögulega væri tímapunktur fyrir hann að róa annað.

„Það eru margar ástæður fyrir því af hverju ég vildi fara, síðasta tímabil gekk ekki eins og við höfðum vonað. Við vorum svolítið frá því í lokin að keppa við efstu liðin, mér leið þannig að mig langaði að takast á við nýja áskorun. Ef þú horfir á Víking í dag, meðbyrinn og jákvæða orkan í kringum Evrópukeppnina. Það er mjög spennandi,“ segir Gylfi í ítarlegu spjalli við 433.is.

Gylfi segir að þrátt fyrir það sem gengið hefur á síðustu daga hafi honum alltaf liðið vel á Hlíðarenda.

„Ég elskaði að vera í Val og það var allt fullkomið, hugsað vel um liðið og yndislegt fólk í kringum klúbbinn. Þetta var fullkomið umhverfi að vera í og auðvelda ákvörðunin hefði verið að vera áfram í Val, en það var eitthvað inni í mér sem langaði að reyna að testa sjálfan mig. Reyna að upplifa eitthvað sem Víkingur er að upplifa núna.“

Upplýsti Val um hug sinn í byrjun febrúar:

Forráðamenn Vals hafa haldið því fram að Gylfi sjálfur hafi aldrei látið félagið vita af því að hann vildi fara og hafi í reynd ekki gert það enn í dag þegar hann er farinn. Þetta segir Gylfi ekki vera satt. Hann hafi tjáð félaginu í byrjun febrúar að hugur hans leitaði annað.

„Þetta er leiðindamál hvernig þetta endaði, báðir aðilar sitthvoru megin við borðið myndu gera þetta öðruvísi ef þetta kæmi upp aftur. Þetta hefði ekki þurft að enda svona, ég hef fengið fyrirspurnir og fengið það sent sem er í umfjöllun. Að ég hafi aldrei látið Val vita að ég vildi fara er ekki rétt, ég tjáði þeim það fyrst þann 4. febrúar. Það er fullt af hlutum sem ég vil ekki fara út í, þetta er búið. Það er leiðinlegt hvernig þetta endaði, þetta hefði átt að fara öðruvísi. Ég og þeir held ég að myndum gera þetta öðruvísi,“ sagði Gylfi.

Hlustaðu á allt viðtalið við Gylfa hérna:

video
play-sharp-fill

Gylfi segist í gegnum ár sitt hjá Val hafa átt mörg góð samtöl við þá sem þar ráða.

„Við höfum mjög góð samtöl alveg frá því að ég kom til klúbbsins, varðandi liðið og hópinn, hvernig þeir horfðu á framtíðina. Það hefur alltaf verið gott samtal, ekkert vesen. Ég hef reynt að leggja mig 100 prósent fram, á hverri einustu æfingu og í hverjum einasta leik, þangað til kannski á móti ÍA. Þar var þetta komið í algjör leiðindi, ég veit það alveg sjálfur að eftir á að hyggja hefði ég átt að tækla þetta öðruvísi. Þetta var orðið mjög súrt, komið í rangan farveg. Ég hefði átt að gera hlutina öðruvísi, þetta var bara ákvörðun sem ég tók og þetta endaði eins og þetta endaði. Auðvelda ákvörðunin hefði verið að vera áfram í Val og ekki rugga bátnum og fara í gegnum þetta allt sem hefur verið í gangi síðustu daga, en ég var tilbúinn að gera það. Ég held að ég geti haldið áfram að bæta mig og komast í betra stand.“

Hvað gerir Gylfi Þór í kvöld? Mynd: DV/KSJ

Var ekki 100 prósent um helgina:

Forráðamenn Vals hafa undanfarna daga sagt að Gylfi hafi um liðna helgi ekki lagt sig fram í leik gegn ÍA í Lengjubikarnum, hann segir það rétt en ítrekar að forráðamenn félagsins hafi þá í nokkuð langan tíma vitað að hann vildi fara.

„Ég er ekkert að fara að ljúga því, ég var ekki 100 prósent þar um helgina. Ég tjáði þeim það 4. febrúar að ég vildi fara, þetta var í gangi fyrir leikinn á móti Fjölni. Þar var málið í farvegi en ekki komið í nein leiðindi, síðan var hausinn kominn annað og málið komið aðeins lengra en vikuna áður. Þetta var komið í algjör leiðindi.“

Valur samþykkti tilboð Breiðabliks og Víkings og Gylfi segir engan nema hann hafa ákveðið hvert hann ætlaði en í viðtölum hefur Styrmir Þór Bragason, varaformaður félagsins, haldið slíku fram. „Ég veit ekki til þess að ég hafi rætt við Styrmi þegar ég tók ákvörðunina, ég er 35 ára gamall og geri það sem mig langar til. Ég veit ekki hvort hann eigi við að faðir minn eða að einhver annar hafi tekið ákvörðun um hvar ég spila fótbolta.“

Gylfi segir að á sínum langa og farsæla ferli hafi það verið hann sem stjórni ferðinni og þessar ályktanir Styrmis séu uppspuni frá rótum.

„Ég veit ekki hvað hann meinar, kannski hans tilfinning. Hingað til hef ég ráðið ferðinni á mínum ferli, ég valdi Víking af því að mig langaði þangað. Það kemur pabba mínum ekki við hvar ég spila fótbolta.“

Gylfi og félagar mæta KR. Mynd: DV/KSJ

Ein erfiðasta ákvörðunin á ferlinum:

Gylfi segir að það hafi verið mjög flókin ákvörðun að velja á milli Breiðabliks og Víkings, þeir grænu í Kópavoginum eru ríkjandi Íslandsmeistarar og eiga auðveldari leið í Evrópukeppnum í sumar. Á sama tíma hafi Víkingur verið á ótrúlegu ferðalagi í Evrópukeppni undanfarna mánuði.

„Gríðarlega erfið, þetta var með erfiðari ákvörðunum sem ég hef þurft að taka í félagaskiptum. Bæði frábær lið, Blikar eru ríkjandi Íslandsmeistarar og hafa verið að styrkja sig. Það er erfitt að dæma núna í febrúar en maður býst við að þeir verði mjög vel spilandi lið og sterkir. Eru með spennandi þjálfara, eru Íslandsmeistarar og hafa gert vel á markaðnum. Víkingur er með mikinn meðbyr í Evrópukeppni og sýna hvað hópurinn er sterkur í gegnum meiðsli og leikbönn. Þeir vinna Panathinaikos 2-1 þar sem þeir voru óheppnir að vinna ekki 2-0 alla vegana, þeir eru búnir að vinna titla síðustu ár. Víkingur er með mjög skemmtilega og vel spilandi leikmenn.“

Hann segir stemminguna á heimavelli Víkings alltaf frábæra. „Það er mikil stemming sem maður hefur upplifað þegar maður spilar í Víkinni, þetta var rosalega erfitt að velja á milli liðanna. Það var varla hægt en ég varð að velja og er mjög ánægður með það hafa valið Víking. Ég er spenntur að þeir komi heim frá Grikklandi.“

Gylfi Þór. Mynd: DV/KSJ

Að eiga vini sem stýra Víkingi og Breiðablik:

Þegar Gylfi fór í viðræður við félögin var málið flókið, hjá Víkingi er Kári Árnason yfirmaður knattspyrnumála en hann og Gylfi áttu mörg góð ár saman í landsliðinu. Í Kópavoginum er það svo Alfreð Finnbogason sem sá um samtalið en hann og Gylfi léku saman í yngri flokkum Breiðabliks og voru saman í landsliðinu um mjög langt skeið.

„Þetta er Ísland og allt er svo lítið, þú ert með tvo félaga og leikmenn sem þú spilaðir með í mörg ár hinum megin við borðið. Það er bara mjög óþægileg staða og vandmeðfarin, þú vilt ekki vera með nein leiðindi. Þú vilt stíga í rétta fótinn í hverju skrefi, ég man þegar ég valdi Val en ekki Víking á sínum tíma og það var erfitt að segja Kára frá því. Það eru ekki margir aðrir staðir í heiminum þar sem þetta kemur upp,“ segir Gylfi.

Víkingur hafði í heilt ár reynt að fá Gylfa, fyrst þegar hann kom heim og síðan hefur félagið ítrekað reynt að kaupa hann. „Það spilaði stórt hlutverk í því að áhuginn hefur verið til staðar í heilt ár, áður en ég byrjaði að æfa aftur fótbolta og ákvað að fara í Val. Áhuginn hefur aldrei minnkað, það er jákvætt að bæði Kári og félagið hafi verið alltaf að reyna. Það er kominn tími til að reyna að endurgreiða þann áhuga.“

„Það sem þeir eru að gera í Evrópu, ef maður spáir í því hvað þetta er svakalegt afrek hjá leikmönnum og félaginu. Það hefur alltaf verið stígandi í íslenskum liðum í Evrópu, þetta er bara gríðarlega langt sem þeir eru komnir núna. Síðustu fimm til sex ár hefur verið uppgangur í þessu hjá Víking, þeir eru búnir að búa til hörkulið og félag. Vonandi eru þeir ekki að fara að stoppa núna, það sem ég hef heyrt frá þeim er að það sé mikill metnaður til að bæta. Ég hlakka til að taka slaginn með þeim.“

Viðtalið má heyra í heild hér að neðan.

Hlustaðu á allt viðtalið við Gylfa hérna:

video
play-sharp-fill
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Solskjær segir frá fimm leikmönnum sem hann vildi fá til United – Enginn þeirra kom

Solskjær segir frá fimm leikmönnum sem hann vildi fá til United – Enginn þeirra kom
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Guardiola fór yfir ástandið á Erling Haaland

Guardiola fór yfir ástandið á Erling Haaland
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Messi mætti í frostið þrátt fyrir kjaftasögurnar – Skoraði glæsilegt mark

Messi mætti í frostið þrátt fyrir kjaftasögurnar – Skoraði glæsilegt mark
433Sport
Fyrir 19 klukkutímum

Mourinho sendi væna sneið þegar hann var spurður út í dýr

Mourinho sendi væna sneið þegar hann var spurður út í dýr
433Sport
Fyrir 22 klukkutímum

United opinberar hvað það kostaði að reka Ten Hag og Ashworth

United opinberar hvað það kostaði að reka Ten Hag og Ashworth
433Sport
Fyrir 23 klukkutímum

Guðni hættir í Víkinni og fer til Gróttu

Guðni hættir í Víkinni og fer til Gróttu
Hide picture