Gian Piero Gasperini, stjóri Atalanta, hikaði ekki við að hrauna yfir sinn eigin leikmann, Ademola Lookman, eftir tap liðsins í Meistaradeildinni í gær. Nú hefur leikmaðurinn gefið út yfirlýsingu.
Atalanta mætti Club Brugge í seinni leik liðanna í umspili um sæti í 16-liða úrslitum. Belgíska liðið vann leikinn óvænt 1-3 og einvígið samanlagt 5-2.
Lookman skoraði mark Atalanta í gær en klikkaði einnig á víti. Gasperini er brjálaður yfir að hann hafi yfirhöfuð tekið spyrnuna.
„Lookman átti ekki að taka þetta víti. Hann er ein versta vítaskytta sem ég hef séð,“ sagði hann eftir leik.
„Hann skorar sjaldan úr vítum á æfingum. Retegui og De Ketelaere voru þarna en Lookman tók boltann þar sem hann var með sjálfstraust eftir markið. Ég kunni ekki að meta þetta,“ sagði Gasperini enn fremur.
Ummæli Gasperini særðu Lookman.
„Það hryggir mig að þurfa að skrifa þessa yfirlýsingu á degi sem þessum, sérstaklega vegna þess árangurs sem við höfum náð sem lið og borg. En að vera tekinn svona út fyrir sviga særir mig ekki bara, mér finnst mér hafa verið sýnd mikil vanvirðing líka,“ segir leikmaðurinn meðal annars í yfirlýsingu í dag.
„Ég hef alltaf lagt mig allan fram til að hjálpa þessu liði að ná árangri, gert allt mitt fyrir þessa ótrúlegu stuðningsmenn. Sá sem átti að taka vítið bað mig um að gera það svo ég gerði það.“