Þremur leikjum var að ljúka í Meistaradeildinni. Um var að ræða seinni leiki í umspili um sæti í 16-liða úrslitum.
Það sem bar hæst var að Bayern Munchen rétt komst hjá því að láta Celtic taka sig alla leið í framlengingu. Bayern vann fyrri leikinn í Skotlandi 1-2 en Celtic komst yfir í kvöld með marki Nicolas-Gerrit Kuhn eftir rúman klukkutíma leik.
Það stefndi í að leikurinn færi í framlengingu en Alphonso Davies jafnaði leikinn í blálokin og Bayern fer þar með áfram samanlagt.
Það var allt opið fyrir seinni leik Atalanta og Club Brugge, en belgíska liðið vann fyrri leikinn 2-1 á heimavelli. Club Brugge kláraði dæmið í fyrri hálfleik í kvöld. Chemsdine Talbi skoraði tvö mörk og Ferran Jutgla eitt.
Ademola Lookman minnkaði muninn fyrir Atalanta snemma í seinni hálfleik og hefði getað skorað annað mark af vítapunktinum en klikkaði. Lokatölur 1-3 og 5-2 samanlagt fyrir Club Brugge.
Loks er Benfica komið áfram eftir fjörugan leik gegn Monaco í kvöld. Liðið vann fyrri leikinn 1-0 og dugði því jafntefli í kvöld, sem varð raunin.
Lokatölur urðu 3-3 þar sem Kerem Akturkoglu, Vangelis Pavlidis og Orkun Kökcu skoruðu fyrir Benfica. Takumi Minamino, Eliesse Ben Seghir og George Ilenikhena skoruðu fyrir Monaco.