Eins og flestir vita er Gylfi genginn í raðir Víkings frá Val. Hann tjáði félaginu að hann vildi fara í síðustu viku og í áðurnefndri yfirlýsingu gagnrýndi Björn frammistöðu Gylfa í leik gegn ÍA í Lengjubikarnum í kjölfarið.
„Í síðustu viku fór af stað atburðarrás í kjölfar þess að Gylfi og hans fólk tjáðu okkur að hann vildi fara frá félaginu. Í kjölfarið sýndi Gylfi bæði liðsfélögum sínum og félaginu öllu mikla vanvirðingu með frammistöðu sinni þegar hann bar fyrirliðabandið í síðasta leik gegn ÍA. Það var ekki sá Gylfi sem við þekkjum,“ skrifaði Björn meðal annars.
„Það var mat stjórnar eftir samtöl við leikmenn og aðila í kringum hópinn að með þessari framkomu hefði orðið ákveðinn trúnaðarbrestur milli leikmannsins og hópsins,“ sagði enn fremur í bréfinu.
Sagnfræðingurinn og fótboltaáhugamaðurinn Stefán Pálsson er á meðal þeirra sem hafa skotið á Val vegna yfirlýsingarinnar í dag.
„Stundum er best að anda djúpt og telja upp í tíu áður en ýtt er á send. Viðskilnaður er oft leiðinlegur en það er samt óþarfi að láta málin enda í illindum. En hversu slakur þarf maður að vera í lengjudeildarleik í febrúar til að það flokkist sem vanvirðing í garð félags og stuðningsfólks!!??“ skrifar Stefán.
Hefur hann fengið töluverð viðbrögð við þessari færslu sinni.
„Hún er vandræðaleg þessi yfirlýsing frá Val , þessum annars frábæra og sigursælasta íþróttaklúbbi Íslands í bæði KK og KVK flokki, hversu litlir og hvað mikla minnimáttarkennd geta menn verið með ? Síðast var það Hannes rekinn og nú þetta, stundum þurfa menn að reka þjálfara eða láta leikmenn fara og stundum vilja leikmenn fara , þá bara takast menn í hendur og fara í sitthvora áttina , það er auðvelt að virðast stór þegar verið er að lyfta bikurum en það er í mótvindi sem menn geta virkilega sýnt hvað klúbburinn er stór,“ skrifaði Ingólfur Þór Hlynsson til að mynda.
„Þetta er vandræðalega vitlaus yfirlýsing/tilkynning. Tilvalin sem kennsluefni í almannatengslum,“ skrifaði Jóhann Hlíðar Harðarson þá.
Stefán tjáði sig einnig um málið á samfélagsmiðlinum X og sló þar á létta strengi.
„Sé að Valsmenn hafa ákveðið að losa sig við Gylfa til Víkings af því að hann var svo lélegur á móti Skaganum í Lengjunni. Það er eins gott að Framarar standi sig á móti Njarðvík á laugardaginn kemur, annars er það bara beinasta leið í Þrótt,“ sagði Stefán þar, en hann er mikill Framari.