The Upshot rifjaði upp rosalega sögu af Jonny Evans og liðsfélögum hans í West Brom á sínum tíma.
Leikmannahópur WBA var í æfingaferð í Barcelona árið 2018. Þá var Evans, sem í dag spilar með Manchester United, á mála hjá félaginu.
Eftir góða drykkju á hótelinu ákváðu nokkrir úr liðinu, Evans, Gareth Barry, Jake Livermore og Boaz Myhill að fara á djammið. Það var hins vegar allt lokað og enduðu þeir á að taka leigubíl á McDonalds.
Þeir sendu bílstjórann inn að panta mat en á meðan brunuðu þeir í burtu á bílnum hans.
Þeir voru á rúntinum til 5:30 um morguninn og lögðu leigubílnum fyrir utan hótelið.
Hringt var á lögreglu og málið rataði í alla fjölmiðla Bretlands, sem og víðar, í kjölfarið.
Evans var fyrirliði WBA á þessum tíma en var bandið tekið af honum fyrir athæfið í Katalóníu.
WBA féll úr ensku úrvalsdeildinni sama ár.