Carlo Ancelotti, stjóri Real Madrid, gefur lítið fyrir þau ummæli stjóra Manchester City, Pep Guardiola, að enska liðið eigi aðeins 1 prósent möguleika á að vinna einvígi liðanna annað kvöld.
Liðin mætast í seinni leik sínum í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á morgun. Real Madrid vann fyrri leikinn í Manchester 2-3 og því verk að vinna fyrir lærisveina Guardiola, sem segir þá aðeins eiga 1 prósent líkur.
„Fyrir leikinn á morgun mun ég spyrja Pep Guardiola hvort hann trúi því virkilega að City eigi bara 1 prósent möguleika gegn okkur,“ sagði Ancelotti á blaðamannafundi í dag.
„Við teljum okkur ekki hafa 99 prósent sigurmöguleika. Við teljum okkur hafa smá forskot sem við þurfum að nýta eins vel og hægt er,“ sagði Ítalinn enn fremur.