Feyenoord henti AC Milan úr Meistaradeildinni í fyrsta leik kvöldsins.
Liðin mættust í seinni leik sínum í umspili um sæti í 16-liða úrslitum, en hollenska liðið vann fyrri leikinn 1-0 á heimavelli.
Santiago Gimenez kom Milan yfir strax á 1. mínútu í kvöld og staðan var 1-0 í hálfleik.
Snemma í seinni hálfleik fékk hins vegar Theo Hernandez í liði Milan rautt spjald og um 20 mínútum síðar var Feyenoord búið að jafna. Þá skoraði Julian Carranza.
Meira var ekki skorað og Feyenoord fer því áfram með 2-1 sigri samanlagt.