Hinn 19 ára gamli Birkir Jakob Jónsson er genginn til liðs við Valsmenn en hann kemur frá ítalska stórliðinu Atalanta þar sem hann hefur verið á mála frá árinu 2021. Samningur Vals og Birkis Jakobs er til fjögurra ára.
Birkir sem er uppalinn í Fram á leiki fyrir öll yngri landslið Íslands en hann lék einnig með Fylki og Breiðablik í yngri flokkum.
„Birkir Jakob er stór og sterkur strákur og gríðarlegt efni. Hann hefur verið í tæp fjögur ár í sterkri akademíu hjá Atalanta á Ítalíu þar sem hann hefur staðið sig vel. Hann hefur eiginleika sem leikmaður sem eiga eftir að styrkja hjá okkur sóknarlínuna. Okkur hlakkar mikið til þess að sjá hann í valsbúningnum næstu árin,“ segir Björn Steinar Jónsson formaður knattspyrnudeildar Vals.
Birkir Jakob var sjálfur fullur tilhlökkunar þegar hann hitti hópinn niður á Hlíðarenda í dag.
„Ég er mjög spenntur enda taldi ég góðan tíma núna til þess að koma heim og fara í fullorðinsfótbolta. Valur er auðvitað risa klúbbur og þarna er fullt af eldri og reyndari leikmönnum sem er hægt að læra helling af,“ segir Birkir Jakob.
Birkir lýsir sjálfum sér sem sóknarsinnuðum leikmanni sem geti spilað uppi á topp og úti á kanti og hann er með skýr markmið fyrir sumarið.
„Ég vil bæta mig sem leikmann og nýta allar þær mínútur sem ég mun fá. Það verður geggjað að læra af Patrick Pedersen. Ég hlakka til.“