Antony heldur áfram að gera frábæra hluti með Real Betis, en hann er þar á láni frá Manchester United.
Antony hafði ekkert getað frá því hann var keyptur á Old Trafford á yfir 80 milljónir punda sumarið 2022 og í síðasta mánuði var hann sendur til Spánar á láni.
Þar hefur hann heldur betur byrjað vel. Brasilíumaðurinn lagði upp mark og var valinn maður leiksins í fyrsta leik sínum fyrir félagið og hefur svo skorað í síðustu þremur leikjum, síðast í sigri á Real Sociedad í gær.
„Antony. Þvílíkur leikmaður,“ sagði á opinberri X-síðu La Liga eftir leik í gær.
Antony er því kominn með þrjú mörk í aðeins fjórum leikjum, en það eru jafnmörg mörk og hann skoraði á allri síðustu leiktíð með United.