Flestir sem horfa á sjónvarp á Íslandi hafa séð auglýsingu þar sem Guðmundur Benediktsson er í sturtu og syngur þar ljúfa tóna. Um er að ræða auglýsingu fyrir Lengjuna, tökudagurinn til að búa til þá auglýsingu var langur.
Guðmundur fór yfir þetta í hlaðvarpinu Seinni níu þar sem aðallega er fjallað um golf en oftar en ekki leiðist spjallið út af sporinu.
Guðmundur sem er fyrrum knattspyrnumaður og er í dag ástsælasti íþróttalýsandi landsins sagði frá því hvernig þessi auglýsing Lengjunnar var til.
„Ég lýg því ekki, mér minnir að við höfum byrjað í tökum klukkan 09:00 á miðvikudagsmorgni. Ég kom heim rétt fyrir 21:00, ég var í sturtu í alvöru í 7 klukkutíma. Ég var soðinn,“ sagði Guðmundur um málið.
Málið var rætt á fundi á mánudeginum og farið í tökur tveimur dögum seinna. „Fjölskyldan var við eldhúsborðið að spila þegar ég kom heim, ég var spurður hvort ég ætlaði að vera með. Ég ætlaði að gera það, settist aðeins í sófann og rotaðist er mér sagt,“ sagði Guðmundur um þennan skemmtilega dag.
Þáttastjórnendur spurðu þá Guðmund hvort hann hefði fengið aukalega greitt fyrir að vera nakinn í auglýsingu. „Nei, væri það ekki ólöglegt? Þetta er ekki eitthvað OnlyFans, þetta er eins og þetta er. Ef ég hefði vitað þetta aðeins fyrr, þá hefði ég farið tvisvar í ræktina.“