Christian Pulisic hefur greint frá því hvernig er að vinna með goðsögninni Zlatan Ibrahimovic sem er í dag yfirmaður knattspyrnumála hjá AC Milan.
Zlatan gerði garðinn frægan sem leikmaður hjá mörgum stórliðum í Evrópu en reynir nú fyrir sér á bakvið tjöldin.
Pulisic er að sjálfsögðu leikmaður Milan en hann segist vera í miklu sambandi við fyrrum sænska landsliðsmanninn.
,,Sambandið er gott og það hefur verið það alveg frá byrjun,“ sagði Pulisic um Ibrahimovic.
,,Hann sagði mér alveg frá fyrstu mínútu við hverju ég ætti að búast hjá félaginu. Um leið og þú kynnist honum þá er hann mjög hreinskilinn.“
,,Hann segir það sem hann er að meina og hvað hann er að hugsa sem er mikilvægt fyrir mig. Hann hefur verið í sambandi við mig og leikmennirnir skipta hann miklu máli.“