Landsliðsfyrirliðinn Jóhann Berg Guðmundsson var í ítarlegu viðtali í nýjasta þætti Íþróttavikunnar á 433.is. Þar var farið um víðan völl.
Ísland mætir Kósóvó í tveggja leikja umspili um að halda sér í B-deild Þjóðadeildarinnar í næsta mánuði.
„Það er gríðarlega mikilvægt að vera eins ofarlega og hægt er í þessari Þjóðadeild, sem hefur gefið okkur frábæra sénsa í að komast á stórmót. Þetta verða tveir erfiðir leikir en ég tel okkur eiga að geta farið í gegnum Kósóvó,“ sagði Jóhann.
Ísland spilar heimaleik sinn í Murcia á Spáni, þar sem ekki er hægt að spila á Íslandi. Endurbætur eiga sér stað á Laugardalsvelli svo þetta ætti ekki að koma fyrir aftur.
„Persónulega finnst mér þetta mjög gott, þekki svæðið mjög vel. En auðvitað er vandræðalegt fyrir Ísland að geta ekki spilað á Íslandi, að vera ekki með einn kláran völl. En það er auðvitað verið að vinna í því. Það er ótrúlegt hvað þetta hefur tekið tíma,“ sagði Jóhann.
Nánari umræða er í spilaranum.