Arsenal má einfaldlega ekki nota sinn efnilegasta leikmann, Max Dowman, sem ferðaðist með liðinu til Dúbaí í æfingaferð á dögunum.
Það er Mikel Arteta, stjóri liðsins, sem staðfestir þær fregnir en um er að ræða sóknarsinnaðan miðjumann.
Arsenal þarf á allri hjálp að halda þessa stundina þar sem menn á borð við Kai Havertz, Gabriel Jesus og Bukayo Saka eru allir meiddir.
Talað var um að hinn 15 ára gamli Dowman gæti mögulega verið valinn í hóp á næstunni en það er ekki í boði.
Ástæðan er sú að Dowman var skráður í U15 hóp Arsenal fyrir tímabilið frekar en U16 sem gerir hann ólöglegan í efstu deild.
Leikmenn í U15 og neðar mega ekki taka þátt í leikjum aðalliðsins og því er undrabarnið ekki löglegt út tímabilið.