Í vikunni afhentu Garðar Ingi Leifsson, markaðsstjóri knattspyrnudeildar FH, og Guðjón Elmar Guðjónsson, verkefnastjóri markaðsmála hjá Kviku banka, Píeta samtökunum 2.200.000 kr. sem safnaðist með sölu á sérstakri treyju frá FH.
Treyjan, sem meistaraflokkar FH í fótbolta spiluðu í, var gul að lit og merkt einkennisorðum Píeta samtakanna: „Það er alltaf von.“ Af hverri seldri treyju runnu 1.000 kr. óskipt til Píeta, en Auður, dóttir Kviku, tvöfaldaði þá upphæð, sem tryggði samtals 2.200.000 kr. framlag til samtakanna.
Treyjan vakti mikla athygli og var kynnt fyrir stuðningsfólki með glæsilegu myndbandi, þar sem leikmenn FH léku lykilhlutverk ásamt tónlistarmanninum Issa. Gulur litur treyjunnar vakti nostalgíu, þar sem hún skartaði gamalli útgáfu af merki FH og eldri útgáfum af vörumerkjum styrktaraðila félagsins.
„Við erum ótrúlega stolt af þessu verkefni og því að geta stutt við það ómetanlega starf sem Píeta samtökin vinna. Það er virkilega hvetjandi að sjá stuðningsfólk okkar sýna samhug í verki og taka svona vel við sér“ sagði Garðar Ingi Leifsson, markaðsstjóri knattspyrnudeildar FH.
Guðjón Elmar bætti við: „Hjá Auði leggjum við mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð og það var okkur sérstakt ánægjuefni að styðja þetta frábæra framtak. Við vonum að þessi stuðningur hjálpi Píeta samtökunum að halda áfram sínu ómetanlega starfi og styðja við þá sem þurfa á aðstoð að halda.“
Þetta er annað árið í röð sem FH gefur út sérstaka góðgerðartreyju. Árið 2023 spiluðu meistaraflokkar félagsins nokkra leiki í bleikum treyjum, þar sem ágóðinn rann til Bleiku slaufunnar. Með því að gefa út góðgerðartreyjur vill FH vekja athygli á mikilvægum málefnum og styðja við góðgerðarstarfsemi.
Píeta samtökin vinna mikilvægt starf í forvörnum gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við einstaklinga og aðstandendur þeirra. Framlagið frá FH og Auði mun nýtast vel í því starfi og styðja við von og bata í samfélaginu.