Vinicius Junior tjáði sig er hann var enn á ný spurður út í framtíð sína, nú eftir meint ósætti innan leikmannahóps Real Madrid með hann.
Í gær var því haldið fram í spænskum miðlum að liðsfélagar Vinicius hjá Real Madrid væru orðnir vel þreyttir á hegðun hans. Var það sagt tengjast því að hann hafi ekki unnið Ballon d’Or verðlaunin í fyrra, en hann var mjög pirraður vegna þess.
Vinicius hefur til að mynda verið orðaður við félög í Sádi-Arabíu og Paris Saint-Germain en hann segist nær því að skrifa undir nýjan samning í Madríd en að fara.
„Við erum að ræða um nýjan samning. Ég vil vera hér í langan tíma og skrifa söguna með Real Madrid. Vonandi getum við klárað allt á næstu dögum,“ segir Vinicius.
Vinicius og Real Madrid unniu frábæran 2-3 útisigur á Manchester City í gær. Um fyrri leik liðanna í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu var að ræða.