Marcin Bulka, fyrrum markvörður Chelsea, hefur sagt ansi skemmtilega sögu af tíma sínum hjá félaginu og tengist hún Cesc Fabregas.
Fabregas og Bulka voru saman hjá Chelsea á sínum tíma en sá fyrrnefndi er hættur og sá síðarnefndi er markvörður Nice í Frakklandi.
Fabregas þurfti eitt sinn að kaupa Range Rover bifreið fyrir liðsfélaga sinn Willy Caballero eftir veðmál á æfingasvæðinu.
,,Þetta gerðist á æfingasvæðinu. Hann sagði við markmann á svæðinu að ef hann myndi verja vítaspyrnu þá myndi hann fá Range Rovers í verðlaun daginn eftir,“ sagði Bulka.
,,Þessi markvörður varði ekki vítið en svo ákvað hann að gera það sama við Willy Caballero. Hann lofaði að kaupa handa honum Range Rover bíl ef hann myndi verja spyrnuna. Viti menn.. Hann varði.“
,,Degi seinna var nýr Range Rover bíll á bílastæðinu en hann var vissulega frá árinu 1990! Rúðurnar voru brotnar, hurðin var ónýt og það voru engir speglar á hliðunum.“
,,Willy kom út og þá sagði Cesc einfaldlega: ‘Þarna, þarna er bíllinn þinn,’ og svo labbaði hann burt.“