Haukur Hinriksson lögfræðingur KSÍ og næsti framkvæmdarstjóri Víkings og Fannar Helgi Rúnarsson heilindafulltrúi sambandsins verða á leik Víkings gegn Panathinaikos á morgun.
Haukur er þó ekki á vegum KSÍ á svæðinu heldur í boði Víkings en Fannar á vegum KSÍ.
Víkingur R. mætir gríska liðinu Panathinaikos í umspili Sambandsdeildar Evrópu fimmtudaginn 13. febrúar klukkan 17:45. Leikurinn fer fram í Bolt Arena í Helsinki. Seinni viðureign liðanna fer fram í Grikklandi fimmtudaginn 20. febrúar.
Enginn af æðstu ráðamönnum sambandsins gerir sér ferð á leikinn sem er sá stærsti í sögu félagsliðs á Íslandi.
Um er að ræða heimaleik Víkings en vegna vallarmála á Íslandi var ekki hægt að spila leikinn hérna.
Víkingur R. endaði í 19. sæti deildarkeppninnar með 8 stig en Panathinaikos endaði í 13. sæti með 10 stig.
Sigurvegari einvígisins tryggir sér sæti í 16 liða úrslitum og mætir þar annaðhvort Fiorentina eða SK Rapid.