Manchester United mun láta allt að 200 starfsmenn fara á næstunni, en um nýjasta niðurskurð Sir Jim Ratcliffe frá því hann tók yfir er að ræða.
The Sun fjallar um málið, en Ratcliffe lét einnig 250 starfsmenn fara fyrir tímabil. Þá hefur hann tekið hressilega til á öðrum stöðum í fyrirtækinu.
Má þar nefna að hann aflýsti jólaskemmtun starfsfólks, losaði Sir Alex Ferguson af launaskrá og sagði upp styrk til fyrrum leikmanna United til að hjálpa þeim eftir ferilinn.
Samkvæmt fréttum er engri deild innan United óhætt þegar kemur að niðurskurðinum nú.
Ratcliffe keypti sinn hlut í United í sumar og tók yfir fótboltahlið félagsins. Hefur hann þegar rekið einn knattspyrnustjóra, Erik ten Hag, úr starfi síðla hausts og réði Ruben Amorim.
Það hefur þó ekki skilað sér enn sem komið er, en United er í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.