Manchester City tók á móti Real Madrid í frábærum leik í kvöld. Um var að ræða fyrri leik liðanna í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.
Real Madrid byrjaði leikinn betur en það var þó Erling Braut Haaland sem kom heimamönnum yfir eftir um 20 mínútna leik. City leiddi 1-0 í hálfleik.
Þannig var staðan allt þar til klukkutími var liðinn, en þá jafnaði Kylian Mbappe.
Þegar tíu mínútur lifðu leiks dró aftur til tíðinda. Phil Foden fór auðveldlega niður í teignum eftir viðskipti við Dani Ceballos og fékk víti. Haaland fór á punktinn og skoraði af öryggi. City yfir á ný.
Það stefndi í að City færi með forskot í seinni leikinn á Spáni í næstu viku en allt kom fyrir ekki. Brahim Diaz jafnaði á ný á 86. mínútu og Jude Bellingham skoraði sigurmarkið í uppbótartíma eftir algjört rugl í varnarlínu City enn á ný.
Erfitt tímabil City heldur því áfram. Liðið er fyrir utan Meistaradeildarsætin í ensku úrvalsdeildinni og rétt komst inn í þetta umspil Meistaradeildarinnar.
Seinni leikur liðanna er á miðvikudag í næstu viku.
Tveir aðrir leik fóru fram á sama stigi keppninnar. Juventus vann 2-1 sigur á PSV á Ítalíu. Mörk lðsins gerðu Weston McKennie og Samuel Mbangula. Reynsluboltinn Ivan Perisic skoraði fyrir PSV.
Dortmund vann þá þægilegan 0-3 útisigur á Sporting. Serhou Guirassy, Pascal Gross og Karim Adeyemi gerðu mörk liðsins.