Ansu Fati, leikmaður Barcelona, var ekki valinn í leikmannahóp liðsins gegn Sevilla í gærkvöldi.
Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem Fati er ekki valinn en um er að ræða fyrrum undrabarn liðsins.
Fati er enn ungur og fagnar 23 ára afmæli sínu á þessu ári en hann spilaði fyrst fyrir Barcelona árið 2019.
Hansi Flick, stjóri Börsunga, var spurður út í fjarveru leikmannsins og hafði athyglisverða hluti að segja.
,,Það voru tæknilegar ástæður fyrir því að Ansu Fati var ekki með okkur í kvöld,“ sagði Flick en hans menn unnu 4-1 sigur.
,,Ég hef rætt við hann beint. Hann er að leggja sig fram og er að komast nær liðinu.“
Fati hefur komið við sögu á tímabilinu en hann hefur spilað átta leiki án þess að skora.