Plymouth, botnlið ensku B-deildarinnar, vann magnaðan 1-0 sigur á Liverpool í 4. umferð enska bikarsins í gær.
Skotinn Ryan Hardie skoraði eina mark leiksins af vítapunktinum snemma í seinni hálfleik og Plymouth, með íslenska landsliðsmanninn Guðlaug Victor Pálsson, hélt út.
Eðlilega var mikið stuð á Home Park, heimavelli Plymouth, í gær og skutu stuðningsmenn létt á Arne Slot, stjóra Liverpool.
„Rekinn á morgun,“ sungu þeir, eins og gjarnan er sungið um stjóra sem hafa verið að standa sig illa eða eru taldir valtir í sessi.
Það verður auðvitað ekki sagt um Slot, sem tók við Liverpool í sumar og er að gera frábæra hluti. Liðið er langefst í ensku úrvalsdeildinni, hafnaði efst í deildarkeppni Meistaradeildarinnar og er komið í úrslit deildabikarsins.