Það er órói í búningsklefa Real Madrid þessa dagana vegna Vinicius Junior. Spænska blaðið Sport fjallar um málið.
Sagt er að Vinicius hafi ekki verið samur eftir að Rodri vann Ballon d’Or knöttinn fremur en hann síðla síðasta hausts. Margir leikmenn eru sagðir vera að fá nóg af Brasilíumanninum, innan vallar sem utan.
Real Madrid vann 2-3 sigur á Leganes í bikarnum á dögunum og eftir leik fór Vinicius án þess að tala við nokkurn. Luka Modrc á þá að hafa verið mjög reiður yfir skorti á varnarvinnu kantmannsins í leiknum.
Þá hefur gengi Vinicius ekki verið upp á marga fiska undanfarnar vikur og Sport segir einhverja aðila innan herbúða Real Madrid telja það bestu niðurstöðuna að hann verði seldur.
Vinicius hefur verið orðaður við félög í Sádi-Arabíu, en eru Sádar sagðir til í að gera hann að dýrasta leikmanni sögunnar.