Eins og flestir vita nú henti Plymouth, botnlið ensku B-deildarinnar, Liverpool úr leik í 4. umferð ensku bikarsins í gær.
Skotinn Ryan Hardie skoraði eina mark leiksins af vítapunktinum snemma í seinni hálfleik og Plymouth, með íslenska landsliðsmanninn Guðlaug Victor Pálsson innanborðs, hélt út gegn toppliði ensku úrvalsdeildarinnar.
Eins og gefur að skilja hefur gengi Plymouth ekki verið upp á marga fiska á leiktíðinni. Tölfræðisíðan OptaJoe vekur þá athygli á að liðið hefur aðeins unnið tvo leiki í B-deildinni síðan í byrjun nóvember.
Það magnaða er að á sama tíma hefur liðið unnið jafnmarga leiki gegn úrvalsdeildarliðum, Brentford og Liverpool í bikarnum.
Það er ljóst að Plymouth elskar stóru leikina en liðið þarf að rífa sig í gang til að halda sér uppi í B-deildinni.
2 – Since the start of November, Plymouth have beaten as many Premier League clubs in all competitions (Brentford & Liverpool) as they have fellow Championship sides (Portsmouth & West Brom). Occasion. pic.twitter.com/a9fO8TEIkY
— OptaJoe (@OptaJoe) February 9, 2025