Samkvæmt öruggum heimildum 433.is er Börkur Edvardsson fyrrum formaður knattspyrnudeildar Vals einn þeirra sem býður sig fram til stjórnar KSÍ á ársþingi sambandsins. Þingið fer fram eftir tæpar tvær vikur.
Framboðsfrestur rann út um helgina en óvíst er hvaða aðrir eru í framboði, kosið verður um fjögur sæti til stjórnar.
Börkur lét af störfum sem formaður knattspyrnudeildar síðast haust. Börkur hafði unnið sjálfboðastarf fyrir Val í 21 ár.
Börkur hefur verið mjög áberandi í íslensku knattspyrnulífi á þessum tími og átt stóran þátt í að byggja upp þá velgengni sem Valur hefur séð síðustu ár.
Hann hefur nú ákveðið að gefa kost á sér í stjórn KSÍ og verður í framboði til stjórnar á ársþinginu.
Halldór Breiðfjörð Jóhannsson, Helga Helgadóttir, Tinna Hrund Hlynsdóttir og Unnar Stefán Sigurðsson eru að klára kjörtímabil sitt. Ekki hefur komið fram hvort öll þau fari aftur í framboð.
Ingi Sigurðsson, Pálmi Haraldsson , Sveinn Gíslason og Þorkell Máni Pétursson munu áfram sitja í stjórninni en þeirra kjörtímabili lýkur árið 2026 en þá verður einnig kosið til formanns á nýjan leik.
Börkur var afar sigursæll í tíð sinni á Hlíðarenda og vann félagið 14 Íslandsmeistaratitla og tíu bikarmeistaratitla í karla og kvennaflokki á þeim tíma.