Mikel Arteta, stjóri Arsenal, ætlar sér að stokka vel upp í leikmannahópnum í sumar og losa sig við sjö leikmenn. Mirror segir frá.
Þriðja tímabilið í röð er Arsenal í toppbaráttunni, nú þó nokkuð á eftir toppliði Liverpool, en Skytturnar hafa endað í öðru sæti á eftir Manchester City undanfarin tvö tímabil.
Arteta vill styrkja hópinn í sumar en jafnframt losa nokkra leikmenn. Mirror segir að lánsmennirnir Raheem Sterling, í eigu Chelsea, og Neto, í eigu Bournemouth, snúi hvorugur aftur til Arsenal eftir þessa leiktíð.
Þá eru þeir Kieran Tierney, Jorginho og Thomas Partey allir að renna út af samningi og má búast við að þeir fari, þrátt fyrir að sá síðastnefndi sé að eiga flott tímabil.
Loks má búast við því að Oleksandr Zinchenko og Jakub Kiwior verði seldir, en þeir eru í litlu hlutverki á Emirates-leikvangnum í dag.