Sambandið ræddi við Arnar Gunnlaugsson, þjálfara Víkings, í dag en hafði áður rætt við Frey Alexandersson og erlendan þjálfara, en nafn þess er ekki getið sem stendur.
„Við höfum átt mjög góða fundi með Arnari og Frey, bæði ég og varaformennirnir. Við höfum setið með þessum aðilum, þetta eru frábærir einstaklingar og góðir kandídatar í að verða næsti landsliðsþjálfari,“ segir Þorvaldur í samtali við 433.is.
Sem fyrr segir hefur erlendur þjálfari einnig mætt á fund KSÍ. „Það var annar frábær einstaklingur sem var rætt við. Við erum sátt með vikuna eins og er.“
En er sambandið nálægt því að taka lokaákvörðun um næsta landsliðsþjálfara eftir fundina undanfarið? „Við tökum spjallið á morgun og næstu daga, ráðfærum okkur við hvort annað og tökum þetta áfram næstu daga. Það var mjög gott að hitta þessa aðila í vikunni,“ segir Þorvaldur.
Það er ekki vitað hvenær ákvörðun um næsta landsliðsþjálfara mun liggja fyrir. „Ég hef engan tíma á því. Við reynum að gera þetta vel en eins hratt og við mögulega getum. Við erum með gott fólk í að fara yfir kostina sem eru í boði.“
Hver kandídat hefur sem stendur farið í eitt viðtal. Er líklegt að þeir verði boðaðir til viðtals á ný? „Það er eitthvað sem við ákveðum síðar,“ segir Þorvaldur varðandi það.
Staða landsliðsþjálfara hefur verið laus síðan Age Hareide hætti undir lok nóvember. Fyrsta verkefni nýs landsliðsþjálfara verður að fara í umspil um að halda sér í B-deild Þjóðadeildarinnar. Svo tekur við undankeppni HM 2026.