Alex Þór Hauksson er mættur aftur í Stjörnuna. Þetta fór að kvissast út fyrr í dag og hefur nú verið staðfest.
Alex Þór kom heim úr atvinnumennsku í fyrra og gekk í raðir KR. Hann fann sig hins vegar ekki þar.
Miðjumaðurinn kom upp í gegnum yngri flokka starf Stjörnunnar og spilaði þar áður en hann fór út til Svíþjóðar. Nú er hann mættur aftur í Garðabæinn.
„Það er gríðarlega gaman að vera kominn heim. Hér hefur mér liðið best, og ég er ákaflega stoltur af því að fá tækifæri til að leggja mitt af mörkum til að gera Stjörnuna að því sem menn lögðu af stað með.
Það er ótrúlega margt búið að breytast, og það verður frábært fyrir mig að fá að taka þátt í því. Ég hef eins og aðrir tekið eftir þeim breytingum sem hafa átt sér stað og fylgst með af aðdáun yfir þeirri gleði og hugrekki sem einkennir liðið. Það er einu orði sagt frábært að vera kominn heim,” segir Alex Þór Hauksson eftir undirskrift.