Michael lést á 27 ára afmælisdaginn sinn þann 30. desember síðastliðinn. Hann lék hér á landi frá 2018-2020 en hafði leikið á Norður-Írlandi undanfarin ár.
„Þegar ég vaknaði um morguninn 30. desember síðastliðinn var eitt það fyrsta sem ég gerði að senda Michael Newberry, vini mínum, afmæliskveðju í skilaboðum. Ég ætlaði síðan að finna til skemmtilegar myndir til að senda með afmæliskveðju á Instagram. Þegar ég sendi honum skilaboðin grunaði mig alls ekki að seinna þennan sama dag væri ég kominn í þá stöðu að vera skrifa minningarorð um hann á samfélagsmiðla. Svona getur lífið verið óútreiknanlegt,“ segir í minningargrein Þorsteins um Michael.
„Ég kynntist Michael Newberry snemma í maí árið 2018 þegar okkur í Víkingi Ó. bauðst að semja við hann sem leikmann. Tímabilið var byrjað og við fámennir í vörninni svo það gafst enginn tími til að fá hann til reynslu. Við urðum bara að taka sénsinn. Við ákváðum að semja við leikmanninn, hann kom til landsins á föstudegi og var mættur í byrjunarliðið í sínum fyrsta leik á laugardegi.“
Þorsteinn rifjar upp að frammistaða Michael í fyrsta leiknum hafi ekki verið neitt sérstök. Svo tók hann þó aldeilis við sér.
„Hann virkaði mjög ryðgaður og virtist ekki vera alveg heill líkamlega. Ég minnist þess að þegar stjórnarmaður félagsins spurði mig eftir leik hvar ég ætlaði að láta leikmanninn sofa þá um nóttina svaraði ég: „Í flugvélinni á leiðinni heim.“ Mér leist bara ekkert á þetta. Það var samt eitthvað við þennan strák. Fyrir utan spennandi ferilskrá og góða umsögn var hann bara svo ótrúlega viðkunnanlegur, með góða nærveru og maður sá það á honum að hann var til í að leggja sig allan fram til að sanna ágæti sitt.
Við ákváðum því að halda honum og það reyndist mikið gæfuspor. Michael var fljótt orðinn alger lykilmaður í liðinu og mikils metinn meðal liðsfélaga sinna. Hann var einnig í miklu uppáhaldi hjá ungum iðkendum félagsins og gaf sér alltaf mikinn tíma til að spjalla við þá sem stoppuðu hann á förnum vegi. Á endanum lék hann 73 leiki fyrir Víking Ó. í deild, bikar og Lengjubikar frá árunum 2018-2020.“
Þorsteinn, segir Michael hafa verið fyndinn og með mikið keppnisskap. Hann rifjar upp skemmtilega og eftirminnilega sögu af honum.
„Við vorum mættir á Akureyri degi fyrr og æfðum þar og gistum. Strax á æfingunni var minn maður kominn með heiftarlega magakveisu sem versnaði bara eftir því sem líða tók á kvöldið. Ég fór í apótek og verslun og keypti allt það sem okkur datt í hug að gæti verið stemmandi fyrir mallakútinn en ekkert virtist bíta á þessa kveisu.
Að morgni leikdags spurði ég Michael hvort hann vildi bara ekki sitja hjá þennan leik, þar sem hann var búinn að eyða nóttinni meira og minna inni á baðherberginu. Hann hélt nú ekki! Hann átti svo auðvitað bara leik lífs síns og var einn af bestu mönnum vallarins í mikilvægum sigri. Á leiðinni út af vellinum leit hann á mig og sagði glottandi. „I fucking told you“ og svo var hann hlaupinn aftur inn á salerni að halda flensunni áfram.“
Með tíð og tíma urðu Þorsteinn og Michael miklir vinir og höfðu oft rætt það að hittast, eins og hann rifjar upp.
„Eftir að hann fór frá Víkingi Ó. og hélt á vit nýrra ævintýra á Norður – Írlandi héldum við alltaf góðu sambandi og vorum alltaf „á leiðinni að fara að hittast.“ Þann 16. janúar ætla ég að láta verða af því að heimsækja loksins Michael vin minn. En í staðinn fyrir að kíkja á leik eða hlægja saman yfir bjór og rifja upp góðar sögur ætla ég að fylgja honum seinasta spölinn. Það sem ég vildi að aðstæður væru öðruvísi. Minningin um frábæran leikmann og enn betri persónu lifir hinsvegar áfram.“